Stjórnarformaður Lloyds TSB hefur greint frá því að hann hafi gert samkomulag við Gordon Brown um að sleppa við samkeppnisrannsókn á samruna bankans við HBOS.

Stjórnarformaðurinn, Sir Victor Blank, sagðist hafa hitt Gordon Brown í kokteilpartíi í fjármálahverfi Lundúna og handsalað samkomulagið. Það var þó gert með því skilyrði að hinn sameinaði banki héldi áfram að lána þeim sem væru að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Guardian segir frá þessu í gær.

Lloyds mun borga 12 milljarða punda, eða sem nemur rétt rúmlega 2.000 milljörðum króna miðað við gengi íslensku krónunnar í gær. Eftir samruna Lloyds og HBOS verður til stærsti banki Bretlands.

Um er að ræða stórviðburð í bankasögu Bretlands en samruninn mun hafa í för með sér að fjölda útibúa verður lokað og starfsmönnum sagt upp, að því er fram kemur í frétt Guardian.

Fjármálaeftirlit Bretlands sendi frá sér tilkynningu um samrunann í gærmorgun þar sem honum er tekið fagnandi:

„HBOS er vel stæður banki sem heldur áfram að fjármagna sig á fullnægjandi hátt. Tilkynningin um samrunann við Lloyds TSB er ánægjuleg þar sem slíkur gjörningur mun líklega auka stöðugleika á fjármálamarkaði og traust meðal viðskiptavina og fjárfesta.“