Stjórnir SH og Sjóvíkur hafa samþykkt niðurstöðu skýrslu sérfróðra aðila um samruna félaganna. Fyrirvari samnings um samruna félaganna telst þá uppfylltur, í samræmi við tilkynningu félaganna til Kauphallar Íslands 7. mars sl. Í kjölfar þess hafa öll samrunagögn verið staðfest.

Tillögur um samruna félaganna verða bornar upp til staðfestingar á hluthafafundi Sjóvíkur sem haldinn verður í fyrsta lagi einum mánuði eftir birtingu samrunaáætlunar í Lögbirtingarblaðinu.

Samkvæmt samrunaáætluninni fá hluthafar í Sjóvík 715.470.156 hluti í SH sem endurgjald fyrir hluti sína í Sjóvík. Til þess að efna skuldbindingar sínar gagnvart hluthöfum í Sjóvík mun SH nýta eigin hluti að nafnverði 98.762.859 krónur auk þess sem gefið verður út nýtt hlutafé í SH að nafnverði 616.707.297 krónur. Hluthafar í Sjóvík munu eiga um 33% hlutafjár í SH að afloknum samruna.

Rekstur Sjóvíkur mun verða hluti af samstæðu SH frá undirritun samnings um samruna þann 5. mars sl. Áætlað er að heildareignir sameinaðs félags verði um 48 milljarðar króna. Fastafjármunir munu nema um 20 milljörðum króna þar af verða óefnislegar eignir um 12 milljarðar króna. Eigið fé samstæðunnar verður um 10 milljarðar króna og vaxtaberandi skuldir um 28 milljarðar króna. Rekstraráætlun sameinaðs félags fyrir árið 2005 verður kynnt samhliða birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung. Að öðru leyti er vísað til rekstrarupplýsinga sem fram komu í tilkynningu til Kauphallar Íslands þann 7. mars sl.