Samkeppniseftirltið hefur samþykkt samruna Skinneyjar-Þinganess hf. og Auðbjargar ehf. Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna síðan því var tilkynnt um kaup Skinneyjar-Þinganes hf. á öllu hlutafé í Auðbjörgu ehf. þann 29. september sl.

Ekki var ráðgert að sameina félögin í skilningi félagaréttar en þó mun Skinney-Þinganes öðlast yfirráð yfir fyrirtækinu og var samruninn því tilkynningarskyldur í skilningi samkeppnislaga.

Um er að ræða fyrirtæki sem starfa bæði við útgerð, vinnslu og sölu á sjávarafla. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að markaðshlutdeild fyrirtækjanna væri lægri en 20% á öllum úthlutuðum aflaheimildum nema hvað varðar humar. Eftirlitið taldi því að ekki væri ástæða til að skoða hvort samruninn myndi raska samkeppni á öðrum mörkuðum heldur en á markaði fyrir veiðar, vinnslu og sölu á humarafla. Rannsókn eftirlitsins leiddi engar vísbendingar í ljós um að samruninn væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti.

Samkeppniseftirlitið taldi því að ekki væri ástæða til þess að aðhafast frekar í málinu og samþykkti samruna félaganna.