Eftir ítarlega rannsókn Samkeppniseftirlitsins á áformuðum samruna Haga hf. og Lyfju hf. er það niðurstaða eftirlitsins að með kaupum sínum á öllu hlutafé í Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Með samrunanum hefði skaðleg samþjöppun orðið á þeim mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði, og samkeppni milli Haga og Lyfju hefði horfið, almenningi og atvinnulífi til tjóns. Því hafi verið óhjákvæmilegt að ógilda samruna Haga og Lyfju.

Samkeppniseftirlitið greindi frá því í gær að það hafi ógilt samruna Haga og Lyfju, en þann 17. nóvember 2016 tilkynntu Hagar um kaup á öllu hlutafé í Lyfju. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvörum vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í apríl sl., en Samkeppniseftirlitið hefur nú með úrskurði hafnað samrunanum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í tilkynningu að samruninn hefði verið „skref í öfuga átt.˝

„Almenningur á Íslandi á að njóta lægra verðs og betri þjónustu á mikilvægum neytendamörkuðum, á grundvelli virkrar samkeppni. Samrunareglum samkeppnislaga er m.a. ætlað að tryggja þetta. Rannsókn okkar sýnir að þessi samruni hefði verið skref í öfuga átt,˝ segir Páll Gunnar.

Í ákvörðun nr. 28/2017 er gerð ítarleg grein fyrir forsendum ákvörðunarinnar, undirliggjandi rannsóknum og meðferð málsins að öðru leyti.