Samruni Sparisjóðs vélstjóra, SPV og Sparisjóðs Hafnarfjarðar, SPH var samþykktur samhljóða á fundum stofnfjáreigenda sjóðanna 1. desember 2006 að því er segir í tilkynningu sjóðanna.

Í kjölfar samþykktanna gengu stofnfjáreigendur SPH inn á fund stofnfjáreigenda SPV þar sem kjörin var stjórn fyrir hinn sameinaða sparisjóð. Hana skipa þeir Jón Þorsteinn Jónsson, formaður, Egill Ágústsson, varaformaður, Styrmir Þór Bragason, Magnús Ármann og Matthías Imsland.

Stjórnir beggja sparisjóðanna samþykktu í apríl áætlun um samruna þeirra. Í kjölfarið hófust viðræður um gerð samrunaáætlunar. Samkvæmt henni var ákveðið að hlutur stofnfjáreigenda SPV í sameinuðum sjóði yrði 61% og hlutur stofnfjáreigenda SPH 39%.

Sparisjóður vélstjóra, SPV, var stofnaður 11. nóvember 1961. Sparisjóður Hafnarfjarðar, SPH, var stofnaður 22. desember árið 1902 og S24, dótturfyrirtæki SPH, var sett á stofn þann 14. október 1999. Sameinaður sparisjóður starfrækir sjö útibú. Starfsmenn verða um 170 talsins. Yfir 50.000 einstaklingar og rúmlega 2.000 fyrirtæki og húsfélög eru í viðskiptum við sameinaðan sparisjóð.