Samruni Kauphallar Íslands og norrænu kauphallarinnar OMX er enn í myndinni en taka þarf mið af því hvernig tekst til að samræma vísitölur OMX í byrjun október, sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hann tók þó fram að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að endurnýja samrunaviðræður.

Stjórn Kauphallarinnar ákvað í fyrra, eftir að ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group kannaði kosti og galla samruna, að sameinast ekki OMX að svo stöddu. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka sagði hins vegar á aðlafundi bankans í síðustu viku nauðsynlegt væri að gera breytingar á Kauphöllinni ef bankinn ætti að vera áfram skráður á Íslandi. Markaðsvirði Kaupþings banka er um 29% af markaðsvirði skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni.

Þórður sagði stjórn Kauphallarinnar ekki hafa lokað á möguleika á samruna og segir sterk rök með og á móti. Hann benti á að OMX ætli að samræma vísitölur innan samstæðunnar í byrjun október og það myndi styrkja möguleika á samruna við OMX ef vel tekst til

Kauphöllin í Kaupmannahöfn rann inn í OMX í nóvember árið 2004 en áður gerðust kauphallirnar í Helsinki og Stokkhólmi meðlimir. Kauphallir Eystrasaltsríkjanna þriggja -- Eistlands, Lettlands og Litháen -- eru einnig hluti af OMX. Kauphöll Íslands og norska kauphöllin standa einar fyrir utan samstæðuna.

Þórður sagði kaup Kauphallarinnar á litlum eignarhlutum í OMX og kauphöllinni í Osló sýna fram á að enn væri áhugi á sameiningu við aðrar kauphallir og að málinu hefði ekki verið vísað alfarið frá.

Lengi hefur verið búist við samþjöppun kauphalla í Evrópu og hafa Deutsche Börse og evrópska kauphöllin Euronext gert tilraunir til að kaupa London Stock Exchange (LSE). Nasdaq-kauphöllin hefur einnig áhuga á að kaupa LSE og OMX reyndi við LSE árið 2001.

Þórður segir að stærstu markaðssvæði íslenskra fyrirtækja séu Bretland og Norðurlöndin og að Kauphöll Íslands eigi frekar samleið með OMX og LSE. Hann bendir á að áhugaverðast væri að vera hluti af sameiningu LSE og OMX.

LSE hefur verið skotmark kauphalla víðs vegar um heim og alls ekki víst að kauphöllin sameinist Nasdaq, þó svo að viðræður eigi sér stað nú, segja sérfærðingar. Stjórn LSE segir að ekki hafi enn borist viðunandi tilboð í kauphöllina og hagur hlutafa sé að hún verði áfram sjálfstæð. LSE neitað nýverið 2,4 milljarða punda kauptilboði Nasdaq.