Þann 8. október síðastliðinn kærðu Samkaup ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 11. september um að heimila samruna Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf. til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og gera þá kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi og samruninn ógiltur.

Til vara gera Samkaup þá kröfu að áfrýjunarnefndin bindi samrunann frekari skilyrðum og takmörkunum einkum varðandi möguleika á sviði dagvörumarkaðar til skemmri eða lengri tíma.

„Samkeppniseftirlitið hefur sjálft metið það svo að Hagar hafi markaðsráðandi stöðu á dagvörumarkaði, með um 50-55% markaðshlutdeild á höfuðborgarsvæðinu. Gangi samruninn eftir óbreyttur munu Hagar ná að styrkja markaðsráðandi stöðu sína enn frekar og draga þannig með alvarlegum hætti úr virkri samkeppni á dagvörumarkaði,“ segir Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa. „Samruninn mun því hafa áhrif á allan markaðinn og mun fyrst og fremst bitna á neytendum.“

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála er nú með málið á sínu borði og munu forsvarsmenn Samkaupa ekki tjá sig frekar um það fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir.