Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 636 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 1.059 milljónir á sama tíma í fyrra. Þar af hagnaðist félagið um tæplega 800 milljónir króna fyrir skatta af fjárfestingastarfsemi, og voru gangivirðisbreytingar fjáreigna jákvæðar um 438 milljónir króna.

Félagið skilaði hins vegar neikvæðri afkomu af vátryggingarekstri, og nam tapið 111 milljónum króna. Í afkomutilkynningu segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, að tapið helgist fyrst og fremst af einu stóru brunatjóni sem henti viðskiptavin félagins á fjórðungnum.

„Í áætlunum er gert ráð fyrir tjónum af þessari stærðargráðu en eðli máls samkvæmt hafa þau afgerandi áhrif í þeim fjórðungi sem þau falla til. Kostnaður vegna tjónsins er hærri en áður þar sem töluverðar hækkanir áttu sér stað á alþjóðlegum endurtryggingamörkuðum um áramótin sem rekja má m.a. til stríðsátaka, alþjóðlegrar verðbólgu og mikilla náttúruhamfara um heim allan. Þær hækkanir hafa bæði áhrif á kostnað við endurtryggingavernd og kostnað við endurnýjun verndar þegar stórtjón falla til," segir Hermann.

Samsett hlutfall yfir 100%

Tjónahlutfallið hækkaði talsvert á milli ára, fór úr 69,4% í fyrra í 89,8% í ár. Tekjur af vátryggingasamningum jukust um 10% á milli ára og námu 7,3 milljörðum króna. Tjón tímabilsins jókst á sama tíma um rúmlega 40% á milli ára og nam 6,6 milljörðum króna.

Samsett hlutfall samstæðunnar var 101,5% á fjórðungnum, samanborið við 94,5% á sama fjórðungi í fyrra. Hlutfallið er kennitala sem mælir arðsemi vátryggingareksturs og er samanlagður tjónakostnaður, rekstrarkostnaður og endurtryggingakostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Ef hlutfallið er yfir 100% skilar vátryggingareksturinn ekki hagnaði.

Í afkomutilkynningu segir Hermann að afkoma af vátryggingasamningum fyrir árið 2023 og til næstu 12 mánaða sé áætluð á bilinu 1.400-1.900 m.kr. og samsett hlutfall á bilinu 94%-96%.

20 milljarðar í eigið fé

Eignir samstæðunnar samkvæmt efnahagsreikningi námu 64 milljörðum króna í lok mars og námu skuldirnar 44 milljörðum. Því var eigið fé félagsins tæplega 20 milljarðar króna í lok mars.

Samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 10. mars að greiða arð sem nemur 1,61 krónum á hlut vegna ársins 2022 eða um 1,9 milljarða króna, og var greiðsludagur 21. mars. Til samanburðar var greiddur arður sem nemur 3,14 krónum á hlut í fyrra vegna ársins 2021, eða sem nemur 3,8 milljörðum króna.

Hrólfssker ehf. er stærsti hluthafi Sjóvár, á 15,65% hlut. Snæból ehf., félag í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Stefánssonar, á 9,93% hlut. Þá er Gildi lífeyrissjóður með rúman 9% hlut.

Sjóvá: Stærstu hluthafar 21. maí 2023

Eigandi Hlutafé Eignahlutfall
Hrólfssker ehf. 184.370.101 15,65%
Snæból ehf. 117.000.000 9,93%
Gildi - lífeyrissjóður 106.242.241 9,02%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 102.892.024 8,73%
Brú Lífeyrissjóður starfs sveit 83.559.485 7,09%
Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild 80.590.000 6,87%
Lífeyrissjóður verzlunarmanna 77.693.535 6,59%
Stapi lífeyrissjóður 43.621.586 3,70%
EGG fjárfestingar ehf. 38.472.548 3,27%