Samkomulag hefur tekist um að Samskip annist flutninga fyrir Bechtel vegna byggingar álvers Alcoa á Reyðarfirði. Um er að ræða flutninga á allskyns varningi, tólum og tækjum, og nemur heildarmagnið allt að 700 þúsund frakttonnum. Er þetta stærsti samningur sem Samskip á Íslandi hafa gert.

Stærsti hluti flutninganna mun fara um Rotterdamhöfn og verður varningurinn ýmist fluttur með leiguskipum beint til Reyðarfjarðar eða með áætlunarskipum Samskipa. Hefur þegar verið ákveðið að fá stærri gámaskip í sumar til að mæta aukinni flutningaþörf. Þau munu leysa af hólmi Akrafell og Skaftafell, sem nú hafa viðkomu vikulega á Reyðarfirði, og mun hvort nýju skipanna um sig geta flutt 600 gámaeiningar.

Endurnýjun á skipakosti Samskipa er reyndar þegar hafin því skemmst er að minnast afhendingar nýs Arnarfells í Þýskalandi um helgina sem getur flutt ríflega 900 gámaeiningar. Það er væntanlegt til Reykjavíkur í næstu viku í sinni fyrstu áætlunarferð milli Evrópu og Íslands. Þá styttist í endurnýjun Helgafells því aðeins er einn mánuður þar til nýtt Helgafell, systurskip Arnarfellsins, verður afhent Samskipum í Þýskalandi.

Mikill uppgangur hefur verið í starfsemi Samskipa á Austurlandi þar sem félagið hefur markvisst verið að byggja upp flutningakerfi sitt og rennir samningurinn við Bechtel enn styrkari stoðum undir þá starfsemi.