Ekki er verið að flytja til neina starfsemi Samskipa á Íslandi og höfuðstöðvar Samskipa hf. eru og verða áfram hér á landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samskipum vegnar fréttar í útvarpsfréttum Bylgjunnar frá því í morgun þar sem fjallað var um að Samskip myndi færa starfssemi sína úr landi.

Í tilkynningunni kemur fram að eignarhaldsfélagið Samskip BV er skráð í Hollandi og hefur verið það síðan í lok síðasta árs.

Þá kemur einnig fram að eignarhaldsfélagið Samskip BV er móðurfélag Samskipa hf., sem er skráð félag á Íslandi, Samskip Multimodal Container Logistics BV, sem er skráð félag í Hollandi, og Samskip Logistics BV, sem einnig er skráð félag í Hollandi. Mörg fleiri dótturfélög, sem skráð eru víðsvegar um heiminn, tilheyra starfsemi Samskipa.

„Með auknum umsvifum Samskipa á heimsvísu hefur hlutur Samskipa á Íslandi eðlilega farið minnkandi í heildarstarfseminni,“ segir í tilkynningunni.

„Það skýrist hins vegar fyrst og fremst af auknum umsvifum erlendis en ekki minnkandi starfsemi hér heima. Þvert á móti hefur markaðshlutdeild Samskipa vaxið jafnt og þétt á Íslandi og starfsemi félagsins verið blómleg. Samdráttur hefur hins vegar verið fyrirsjáanlegur á Íslandi og því var gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða innan félagsins fyrr á árinu til að mæta minni tekjum.“

Þá kemur fram að þeir atburðir sem síðan urðu - og engan óraði fyrir - hafa hins vegar leitt til þess að Samskip þurfa að draga meira saman seglin.

„Þær aðgerðir sem nú verður gripið til fela í sér að siglingaáætlun félagsins verður breytt. Farið verður í 3ja skipa kerfi í stað 4ra skipa kerfis áður. Jafnframt hefur starfsfólki fækkað,“ segir í tilkynningunni.

„Það er von þeirra sem standa við stjórnvölinn hjá Samskipum að íslenska þjóðin verði ekki lengi niðri í þessum öldudal og bráðlega blasi við betri tímar með hagsæld öllum til handa.“

Leiðrétting: Í fyrri tilkynningu Samskipa var sagt að starfsfólki yrði fækkað. Félagið hefur sent leiðréttingu á þessu þar sem tekið er fram að starfsfólki hafi verið fækkað.