Landflutningar-Samskip, hafa tekið í notkun tvær nýjar vöruflutningabifreiðar af gerðinni Mercedes-Benz Actros, sem fluttar voru til landsins af bílaumboðinu Öskju. Um er að ræða fyrstu endurnýjun í 40 bíla flutningaflota félagsins um nokkurt skeið en bílarnir verða notaðir í flutningum á milli Reykjavík og Egilsstaða.

Þetta kemur fram í tilkynningu um kaupin.

Úr tilkynningu:

„Fyrir okkur skiptir miklu máli að við séum með örugga og rekstrarlega hagkvæma bíla sem eru sterkir í endursölu“, segir Ingi S. Ólafson rekstrarstjóri bílaflutningasviðs Samskipa. „Þá skiptir einnig miklu máli að þjónusta sé til fyrirmyndar því bílarnir mega ekkert stoppa. Á hverju ári aka bílar á okkar vegum um 4,5 milljón kílómetra og er mjög mikilvægt að velja sparneytna bíla en um leið bíla sem hæfa þeim flutningum og leiðum sem hver bíll ekur,“ segir Ingi ennfremur.

Á hverjum degi leggja flutningabílar af stað frá Landflutningum-Samskip sem koma við á 40 – 70 áfangastöðum og skapa þar með þéttriðið flutningsnet um land allt. Fyrirtækið býður upp á alhliða flutningaþjónustu á vörum , búslóðum , heilförmum og gámum. Einnig er boðið upp á söfnun og dreifingu sem og heimakstur á vörum.