Stjórnendur Samskipa fagna því að niðurstaða skuli vera fengin í mál sem varðar brot Eimskips á samkeppnislögum. Í tilkynningu frá Samskipum segir að rannsókn samkeppnisyfirvalda hafi hafist árið  2002 í framhaldi af kæru frá Samskipum. Niðurstaða málsins, og viðbrögð Samkeppniseftirlitsins í framhaldinu, staðfesta að Samskip höfðu gilda ástæðu til að leggja fram kæru. Ljóst er að málið var alvarlegra en stjórnendur Samskipa gerðu sér grein fyrir á sínum tíma.

Það kemur jafnframt á óvart hversu skipulögð og umfangsmikil þessi aðför að Samskipum var og þar með aðför að frjálsri samkeppni. Með þessum brotum á 11. grein samkeppnislaganna, sem ætlað er að vernda neytendur og tryggja heilbrigða samkeppni, var  í raun ráðist gegn hagsmunum almennings og fyrirtækja í landinu.

Samkeppnisyfirvöld hafa með rannsókn sinni rækt skyldur sínar með ágætum og komið þeim skýru skilaboðum á framfæri að fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu bera mikla ábyrgð og verða að standa undir henni, eins og segir í tilkynningunni.