Umfangsmikil endurnýjun á sér nú stað á frystigámaflota Samskipa og fær félagið afhenta 150 frystigáma í Árósum í Danmörku í þessari og næstu viku. Frystigámarnir eru smíðaðir hjá Mærsk gámaverksmiðjunum og kosta um 200 milljónir króna.

Nýju gámarnir fara annars vegar til endurnýjunar á eldri gámum Samskipa og hins vegar til að mæta aukinni frystigámaþörf vegna aukinna flutninga félagsins.

Í frétt frá Samskipum kemur fram að um er að ræða svokallaða þriðju kynslóðar framleiðslu af 40 feta háþekju frystigámum frá Mærsk verksmiðjunum og er búið að styrkja þá verulega frá fyrri framleiðslu. Rúmtak hvers gáms er 64 rúmmetrar, eigin þyngd er 4,3 tonn og hann getur borið um 30 tonn af vörum. Gámarnir eru búnir Daikin-vélbúnaði, með möguleika á fjaraflestri, og er hægt að að stilla hitastigið í þeim frá 30 gráðu frosti upp í 25 stiga hita.