Samskip hafa fest kaup á gámaflutningaskipunum Arnarfelli og Helgafelli sem verið hafa í siglingum fyrir félagið milli Íslands og Evrópuhafna frá ársbyrjun 2005. Um er að ræða nærri fjögurra milljarða króna fjárfestingu fyrir Samskip, að því er segir í tilkynningu.

Samskip hafa verið með Arnarfell og Helgafell á leigu frá því að þau voru smíðuð fyrir sjö árum. Íslenskar áhafnir eru á báðum skipunum. Arnarfell og Helgafell eru systurskip, smíðuð í Hamborg. Þau eru í vikulegum áætlunarsiglingum til Evrópu, farið er frá Reykjavík á fimmtudagskvöldi með viðkomu í Vestmannaeyjum á leið til Immingham á Bretlandi. Þaðan er siglt til Rotterdam, Cuxhaven, Árósa, Varberg og Færeyja og komið til baka til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgni.

Í tilkynningunni er haft eftir Ásbirni Gíslasyni, forstjóra Samskipa, að skipaverð sé hagstætt þessi misserin á heimsmarkaði og að áhugavert kauptækifæri hafi skapast, sem fyrirtækið hafi gripið. Þetta sé fjárfesting upp á tæpa fjóra milljarða króna og að hann telji að um góð kaup sé að ræða - enda skipin sérhönnuð fyrir Samskip á sínum tíma. Fjármögnun kaupanna sé jafnframt á hagstæðum kjörum, sem sé bæði viðurkenning á góðri stöðu félagsins og endurspegli það traust sem fyrirtækið njóti, en það eru þýskir bankar sem annast fjármögnunina.