Í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir þjóðina og minnkandi vöruinnflutnings til landsins hefur siglingaáætlun Samskipa til og frá Íslandi verið endurskoðuð og munu þrjú skip annast flutninga félagsins á þessari leið, í stað fjögurra áður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samskip.

Þar kemur fram að Akrafell hættir siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu og fer í önnur verkefni, ótengd Íslandi.

Hvassafell heldur hins vegar áfram áætlunarsiglingum milli Reyðarfjarðar, Kollafjarðar í Færeyjum, Rotterdam og Immingham á Bretlandseyjum en skipið hættir að hafa viðkomu í Reykjavík.

Í tilkynningunni kemur fram að með þessum breytingum er hægt að tryggja viðkomu Hvassafellsins á þessum stöðum með 8 til 9 daga millibili.

Þá verða engar breytingar á áætlunarsiglingum Arnarfells og Helgafells sem áfram fylgja vikulegri áætlun milli Reykjavíkur, Grundartanga, Vestmannaeyja, Immingham, Rotterdam, Cuxhaven í Þýskalandi, Varberg í Svíþjóð, Árósa í Danmörku og Kollafjarðar.

„Með þessum breytingum, sem hafa þegar tekið gildi, eru Samskip að aðlaga flutningsgetu sína að breyttu efnahagsumhverfi og draga úr kostnaði,“ segir í tilkynningu Samskipa.