Samskip hafa flutt alla starfsemi félagsins í Rotterdam í nýja skrifstofubyggingu við gömlu höfnina, segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar verða höfuðstöðvar fyrir starfsemi félagsins erlendis en yfirstjórn félagsins og Íslandsstarfsemin verða eftir sem áður með höfuðstöðvar í Reykjavík.

Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Samskipa erlendis undanfarin misseri, bæði vegna umfangsmikilla uppkaupa á erlendum flutningafyrirtækjum og einnig vegna innri vaxtar og hefur starfsemin í Rotterdam verið á þremur mismunandi stöðum síðastliðið ár.

Við flutning starfseminnar í Rotterdam undir eitt þak hefur öll aðstaða starfsfólks tekið stakkaskiptum og á bætt og nútímaleg aðstaða að leiða til bæði hagræðingar og markvissari þjónustu við viðskiptavini Samskipa.

Nýju höfuðstöðvarnar eru hluti af svonefndu DockWorks verkefni við Waalhaven í gömlu höfninni í Rotterdam. Þar hefur gamalt iðnaðarsvæði nú gengið í endurnýjun lífdaga sem svæði fyrir höfuðstöðvar alþjóðlegra flutningafyrirtækja.