Samskip hafa opnað nýja skrifstofu í Þórshöfn í Færeyjum og munu endurskoða siglingaráætlunina í kjölfarið. Samningar þar að lútandi voru undirritaðir ytra gær. Um leið var gengið frá ráðningu Joels undir Leitinum sem yfirmanns Samskipa í Færeyjum og tveggja starfsmanna á Þórshafnarskrifstofuna. Eru þeir allir með umtalsverða starfsreynslu í flutningastarfsemi og því mikill fengur fyrir Samskip að fá þá í sínar raðir.

Þar með eru starfsmenn Samskipa í Færeyjum orðnir fjórir talsins því einn var fyrir í Klakksvík en þangað hefur félagið verið með reglubundnar áætlunarsiglingar frá því í byrjun apríl sl.

?Okkur hefur gengið vel að ná fótfestu á færeyska markaðnum og hafa móttökurnar þar verið afar góðar frá því að starfsemin hófst þar snemma í vor,? segir Knútur G. Hauksson forstjóri Samskipa í tilkynningu frá félaginu. ?Opnun skrifstofunnar í Þórshöfn og reglubundnar áætlunarsiglingar þangað eru rökrétt framhald í Færeyjaútrásinni og við hyggjum á enn frekari landvinninga þar.?

Frá því Samskip hófu siglingar til Færeyja, fyrst hálfsmánaðarlega með Skaftafellinu í byrjun apríl og síðan vikulega með tilkomu Akrafellsins í júní, hefur aðaláherslan verið lögð á útflutning á ferskum og frosnum fiski til Bretlands og meginlands Evrópu. Eru engar breytingar fyrirhugaðar á þeirri starfsemi eða samstarfinu við færeyska flutningafyrirtækið Farmaleiðir. Nú fer hins vegar fram endurskoðun á siglingaáætlun félagsins, fyrst og fremst með það fyrir augum að bæta enn frekar þjónustuna við innflytjendur sem og aðra viðskiptavini í Færeyjum.