Samskip hagnaðist um 1,2 milljarð króna á árinu 2015. Hann dróst saman um 124 milljónir króna milli ára. EBITDA lækkaði einnig milli ára. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem Samskip sendi frá sér rétt í þessu.

Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu um 7,7% milli ára og voru 91 milljarður króna samanborið við 85 milljarða árið 2014. Rekstrargjöld námu 90 milljörðum og jukust um 6,6 milljarða frá árinu 2014 eða um 7,9%. EBITDA lækkaði lítillega milli ára en hún nam 3,0 milljörðum króna samanborið við 3,1 milljarð árið 2014.

Heildareignir Samskipa-samstæðunnar námu 38 milljörðum króna í lok árs 2015 og jukust um 5,9 milljarða milli ára eða 18,5%. Þar af voru 9 milljarðar króna eigið fé og skuldir félagsins tæplega 29 milljarðar króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 23,8%.