Samskip mun frá og með 18. mars næstkomandi opna nýja siglingaleið á Íslandi. Flutningaskip á vegum félagsins fer þá frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Reyðarfjarðar og þaðan til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum.

Í tilkynningu frá Samskipum kemur fram að skipið kemur aftur til Reykjavíkur frá Rotterdam  sunnudaginn 31. mars og leggur af stað í nýja hringferð daginn eftir, 1. apríl.

„Við höfum fundið fyrir mikilli þörf á beinum siglingum frá Vestfjörðum og Norðurlandi, m.a. á sjávarafurðum inn á helstu markaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, í tilkynningunni.

„Við grípum nú tækifærið og endurskipuleggjum leiðakerfi okkar. Með þessum breytingum komum við til móts við óskir og þarfir viðskiptavina félagsins.“

Þá kemur fram að nýja siglingaleiðin bjóði upp á nýja kosti fyrir íslenska og erlenda viðskiptavini Samskipa. Loks muni bæði útflytjendur og innflytjendur á landsbyggðinni sjá fram á hagræði og fjárhagslegan sparnað með því að komast í beint samband við mikilvægustu markaðssvæði sín í Evrópu.

„Nýja siglingaleiðin mun draga úr landflutningum. Dýr olía sparast, álagið á vegakerfið minnkar og breytingin því afar jákvæð og umhverfisvæn,“ segir í tilkynningunni.

Hér fyrir neðan má sjá kort af hinni nýju siglingaleið.

Kort af nýrri siglingaleið Samskipa.
Kort af nýrri siglingaleið Samskipa.