Samskip högnuðust um tvo milljarða króna á síðasta ári, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Velta samstæðunnar í fyrra var um 88 milljarðar króna og er áætluð um 100 milljarðar króna á þessu ári.

Í tilkynningunni er haft eftir Ólafi Ólafssyni, stjórnarformanni félagsins, að Samskip hafi glímt við erfitt efnahagsumhverfi frá því snemma árs 2008 en hann telji að tekist hafi að vinna vel úr þessum erfiðu aðstæðum.

Í dag koma þrír fjórðu hlutar tekna félagsins frá erlendri starfsemi og segir Ólafur að flutningakerfi Samskipa í Evrópu sé það stærsta í dag. Mikilvægt sé að tryggja íslensku atvinnulífi aðgang að þessu kerfi og um leið mögleikann að nýta stærð og hagkvæmni þess til vaxtar á öllum sviðum fyrir íslensk fyrirtæki.