Samskip er í yfirtökuviðræðum við breska flutningafyrirtækið Seawheel, samkvæmt heimildamönnum Viðskiptablaðsins. Einnig hefur verið haft eftir stjórnendum Seawheel í fagtímaritum að fyrirtækið sé til sölu ef rétti aðilinn ber sig eftir því.

Ólafur Ólafsson, starfandi stjórnarformaður Samskipa, sagðist þó ekki geta staðfest að félagið ætti í yfirtökuviðræðum við Seawheel þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins hafði samband við hann. Ekki náðist í Ásbjörn Gíslason, forstjóra Samskipa á Íslandi, og forstjóri Seawheel, Alan Jones, var einnig vant viðlátinn.

Velta Seawheel er um 200 milljónir evra (15,8 milljarðar íslenskra króna) og fyrirtækið er með um 200 manns í vinnu í 15 skrifstofum víða um Evrópu. Höfuðstöðvar félagsins eru í Ipswich í Bretlandi.

Samskip hófu skipulega útrás árið 1998 þegar fyrirtækið keypti Bruno Bishoff í Þýskalandi. Í mars á þessu ári tóku Samskip yfir hollenska skipafélagið Geest North Sea Line. Félagið keypti svo frystigeymslufyrirtækið Kloosterboer, sem er með starfsemi í Hollandi, Noregi og á Færeyjum, í apríl.

Mikil samlegðaráhrif verða af samruna Geest og Seawheel þar sem félögin eru keppinautar á sömu siglingarleiðum. Sameinað Geest og Seawheel mun því efla markaðstöðu Samkipasamstæðunnar töluvert, segja heimildamenn Viðskiptablaðsins.

Samskip lagði fram tillögu til stjórnar félagsins í siðustu viku um að auka hlutafé félagsins um allt að 700 milljónum króna að nafnverði og gerir tillagan ráð fyrir að gildandi heimild stjórnarinnar til að auka hlutafé um allt að 300 milljónum verði felld niður. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins mun aukið hlutafé vera notað til þess að fjármagna hugsanleg kaup á Seawheel. Fyrirtækið hefur einnig átt í viðræðum við banka um lán til kaupanna.

Geest semur um leigu á fjórum nýjum gámaflutningaskipum

Dótturfélag Samskipa, Geest North Sea Line, hefur gengið frá leigu á fjórum nýjum gámaflutningaskipum og verða þau afhent félaginu á næsta ári, segir í tilkynningu frá Geest. Virði leigusamningsins var ekki gefið upp.

Nýju skipin geta flutt 812 tuttugu feta gámaeiningar og eru smíðuð í skipasmíðastöðinni Damen Shipyards Group í Rúmeníu. Nýju skipin eru eins og skipin Geeststroom og Geestdijk, sem Geest tók í notkun á fyrrihluta þessa árs. Félagið fær fyrstu tvö skipin afhent næsta vor en hin tvö um haustið. Tvö skipanna verða eingöngu notuð á siglingaleiðum Geest til Bretlands en hin verða notuð jafnt á öðrum siglingaleiðum félagsins.

Eftir kaupin á Geest er Samkip með 18 gámaflutningaskip í föstum áætlunarsiglingum milli meginlands Evrópu og Bretlands, Írlands, Spánar, Skandinavíu, Eystrasaltslandanna og Rússlands. Þá eru fjögur gámaskip í áætlunarferðum milli Íslands, Færeyja, Bretlands og meginlands Evrópu.