Samskip hefur kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE), frá 17. apríl síðastliðnum, sem heimilaði Eimskip og Royal Arctic Line ákveðið samstarf, til úrskurðarnefndar samkeppnismála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipum til Kauphallarinnar.

Umrædd ákvörðun lýtur að beiðni fyrrgreindra tveggja félaga til að samnýta pláss í áætlunarskipum. Samstarfið felur í sér að þrjú gámaskip sigla á ákveðinni leið, tvö þeirra í eigu Eimskipa og eitt í eigu Royal Arctic Line. Siglingarleiðin er frá Nuuk í Grænlandi og til Póllands með viðkomu í Osló, Þórhöfn, Árósum, Helsingborg og Reykjavík. Félögin tvö myndu síðan skipta raunflutningsgetu skipanna á milli sín í samræmi við samkomulag þeirra á milli.

Að mati SKE var samstarfið til hagsbóta fyrir íslenska neytendur og ekki til þess fallið að fela í sér fækkun keppinauta eða minnka samkeppnislegan þrýsting þeirra. Hann hefði því jákvæð áhrif á markaðinn. Fjögur skilyrði voru þó sett fyrir samstarfinu sem bæði félög féllust á.

„Eimskip telur kæruna ekki eiga við nein rök að styðjast og mun halda áfram undirbúningi sínum fyrir samstarfið. Eimskip vonar að úrskurður nefndarinnar liggi fyrir sem fyrst,“ segir í tilkynningu Eimskipa. Úrskurður mun liggja fyrir innan sex vikna.