Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað frá kæru Samskipa þar sem flutningafyrirtækið krafðist þess að liður í sátt Eimskips og Samkeppniseftirlitsins, vegna samráðs Eimskips og Samskipa á árunum 2008-20013, yrði felldur úr gildi. Úrskurðinn má finna hér .

Samkvæmt sáttinni, sem tilkynnt var um 16. júní síðastliðinn, viðurkenndi Eimskipi samskipti og samráð við Samskip á umræddu tímabili og að sú háttsemi hefði falið í sér alvarleg brot gegn samkeppnislögum og EES-samningnum. Eimskip féllst á að greiða 1.500 milljóna króna stjórnvaldssekt.

Samskip kærði ákvörðun ákvörðun SKE þann 13. júlí síðastliðinn og krafðist þess að málsgrein sem kveður á um að eigi Eimskip viðskiptalegt samstarf við Samskip þá skuldbindi félagið sig til þess að hætta því“. Í því felst einnig að Eimskip skuldbindi sig til þess að eiga ekki í samstarfi við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip eiga einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki, nema í þeim tilfellum þar sem hægt sé að sýna fram á að eðlisamstarfsins raski ekki samkeppni á milli Eimskips og Samskips.

Sjá einnig: Þröskuldur Eimskips færi illa með Samskip

Samkvæmt frétt á vef eftirlitsins segir að Samskip telji fyrirmælin fela í sér ólögmæta takmörkun á samnings- og atvinnufrelsi fyrirtækisins sem styrkti markaðsráðandi stöðu Eimskips en veikti stöðu Samskipa.

Samkeppniseftirlitið krafðist þess fyrir áfrýjunarnefndinni að kærunni yrði vísað frá þar sem skuldbinding Eimskips væri „bæði lögmæt og nauðsynleg í ljósi þeirra alvarlegu brota gegn samkeppnislögum sem Eimskip hefði viðurkennt“.

Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kemur fram að „sá sem gerir sátt í máli [hafi] forræðið á því að undirgangast skilyrði og stjórnvaldssekt til að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni og þá með hans eigin hagsmuni að leiðarljósi. Eðli málsins samkvæmt hefur slík sátt alla jafnan í för með sér takmörkun á samstarfi þeirra aðila sem sætt hafa rannsókn í máli vegna ólögmæts samráðs.“

Áfrýjunarnefndin féllst ekki á að Samskip ætti rétt á að koma að gerð sáttarinnar við Eimskip og geti því ekki borið umrætt ákvæði sáttarinnar undir áfrýjunarnefndina. Í þessu sambandi var tekið fram að þætti Samskipa væri enn ólokið. Taldi áfrýjunarnefnd því óhjákvæmilegt að vísa kæru Samskipa frá nefndinni.