Samskip hafa fest kaup á breska skipafélaginu Seawheel og verður rekstur þess sameinaður gámaflutningastarfsemi Samskipa í Evrópu. Fyrr á árinu keyptu Samskip hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line og varð félagið þar með eitt stærsta gámaflutningafélag í siglingum innan Evrópu. Með kaupunum á Seawheel treysta Samskip stöðu sína enn frekar á þessum markaði því fram til þessa hafa samkeppnisaðilarnir Seawheel og Geest North Sea Line verið leiðandi í flutningum milli meginlands Evrópu og Bretlands, Írlands og Skotlands. Áreiðanleikakönnun vegna kaupanna á Seawheel er lokið og er þess nú beðið að samkeppnisyfirvöld samþykki kaupin. Kaupverð er ekki gefið upp.

Seawheel er rótgróið félag stofnað 1969 og hefur 12 gámaskip í reglubundnum siglingum milli Bretlands, Írlands, Spánar og fleiri hafna í Norður-Evrópu. Félagið hefur yfir að ráða rúmlega 7000 gámum og flytur árlega um 300 þúsund gámaeiningar. Áætluð velta þess á yfirstandandi ári er 13 milljarðar íslenskra króna. Starfsmenn Seawheel eru um 200 og eru höfuðstöðvar þess í Ipswich á Bretlandi en félagið er auk þess með 14 skrifstofur í 7 löndum. Á síðustu misserum hafa eigendur Seawheel unnið að miklum endurbótum í rekstri félagsins og fengu þeir af því tilefni verðlaun samtaka í flutningaiðnaði (IWF Freighting Industry Awards), sem skipafélag ársins 2005.

Eftir sameininguna við Seawheel hafa Samskip yfir að ráða 36 gámaflutningaskipum sem flytja árlega 1100 þúsund gámaeiningar milli hafna í Evrópu. Með kaupunum á Seawheel eykst velta Samskipa úr 45 í 58 milljarða íslenskra króna og starfsmannafjöldinn úr 1350 í 1550.

Að sögn Ásbjörns Gíslasonar forstjóra Samskipa fellur flutninganet Seawheel mjög vel að því flutningakerfi sem til varð við samruna Samskipa og Geest North Sea Line. ?Með því að sameina flutningakerfi þessara tveggja stærstu félaga sem áður kepptu í sjóflutningum á milli Bretlandseyja og meginlandsins verður til öflug eining með geysilega sterka markaðsstöðu." Ásbjörn segir kaupin á Seawheel rökrétt framhald af þeirri stefnu sem mótuð hefur verið um uppbyggingu Samskipa sem leiðandi félags í gámaflutningum í Evrópu.

Kaupþing Ltd. í London veitti ráðgjöf við kaup Samskipa á Seawheel.

Samið um fjögur ný gámaflutningaskip
Það er skammt stórra högga á milli hjá Samskipum því í síðustu viku var greint frá því að dótturfélagið Geest North Sea Line hefði samið um leigu á fjórum nýjum gámaflutningaskipum sem eru í smíðum og verða afhent á næsta ári. Nýju skipin geta flutt 812 tuttugu feta gámaeiningar hvert og eru þau sérstaklega hönnuð og byggð eftir óskum Geest. Tvö skipanna verða eingöngu notuð á siglingaleiðum félagsins til Bretlands en hin munu þjóna öðrum áætlunarleiðum félagsins. Nýju skipin falla mjög vel að sameinuðu flutninganeti Geest og Seawheel þar sem stefnt er að því að reka færri en stærri skip.