Samskip hafa keypt frystivöru- og flutningsmiðlunina ICEPAK sem er með víðtæka alþjóðlega starfsemi og skrifstofur á Bretlandseyjum, í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Í tilkynningu vegna kaupanna er haft eftir Peder Winther framkvæmdastjóra frystivöruflutningasviðs Samskipa: “Flutningastarfsemi ICEPAK, og sú víðtæka þekking og reynsla sem starfsfólk og stjórnendur fyrirtækisins búa yfir, er mikilvæg viðbót við ört vaxandi þjónustu Samskipa í kæli- og frystivöruflutningum og styrkir mjög stöðu okkar á stórum markaðssvæðum, sérstaklega í Bandaríkjunum, Ástralíu, Asíu, Suður-Ameríku og á Bretlandseyjum.“

ICEPAK var sett á laggirnar fyrir 15 árum til að þjóna vaxandi kröfum hins alþjóðlega matvælamarkaðar um heildarlausnir í kæli- og frystiflutningum, frá dyrum seljanda að dyrum kaupanda. Á Bretlandseyjum er félagið með skrifstofu í Basildon, rétt austan við London, þrjár skrifstofur eru í Bandaríkjunum; í Merchantville, New Jersey og Seattle, og ein í Sydney í Ástralíu.

Eftir kaupin á ICEPAK geta Samskip boðið viðskiptavinum sínum upp á enn víðtækari þjónustu í frystivöru- og flutningsmiðlun á heimsvísu. Félagið hefur unnið markvisst að því að efla umsvif sín í Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og nú Ástralíu, til viðbótar við umfangsmikið þjónustunet félagsins í Evrópu; allt frá Íslandi í vestri til Rússlands í austri og Skandinavíu í norðri til Ítalíu og Spánar í suðri, eins og segir í tilkynningunni.