Samskip hafa fest kaup á Ísstöðinni hf. á Dalvík af Óskari Óskarssyni, ásamt 1.000 tonna frystigeymslu. Ísstöðin, sem er þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn, framleiðir og selur ís, leigir út geymslupláss í frystigeymslunni á Dalvík og annast löndunarþjónustu fyrir skip og báta í Dalvíkurhöfn.

Mikið samstarf hefur ætíð verið á milli Samskipa og Ísstöðvarinnar og með kaupunum næst fram umtalsverð samnýting á mannafla og tækjabúnaði. Er markmiðið að efla enn frekar þjónustu Samskipa við viðskiptavini á svæðinu en stór hluti af starfsemi félagsins á Dalvík tengist fiskflutningum og annarri þjónustu við sjávarútveginn. Einnig býður félagið upp á almenna vöruflutninga, vöruhúsaþjónustu og annast rekstur ferjunnar Sæfara.