Samskip hefur keypt frystiflutninga- og geymslustarfsemi hollenska flutningafyrirtækisins Kloosterboer og verður hún sameinuð frystiflutningastarfsemi Samskipa. Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, greindi starfsmönnum frá kaupunum á fundi í dag, en skrifað var undir samninga í morgun. Eftir kaupin er gert ráð fyrir að áætluð velta Samskipasamstæðunnar á þessu ári verði um 45 milljarðar króna.

Um er að ræða frystigeymslur fyrir sjávarafurðir í Hollandi, Noregi og Færeyjum og er heildargeymsluplássið um 84 þúsund tonn. Til samanburðar er geymslupláss í Ísheimum, frystigeymslu Samskipa á við Sundahöfn í Reykjavík um 6 þúsund tonn.

Kloosterboer er umfangsmesta fyrirtæki á sínu sviði í Hollandi með um 100 starfsmenn og eftir kaupin verða Samskip því eitt af leiðandi fyrirtækjum í Evrópu í þjónustu við sjávarútveginn, með frystiskip, frystigeymslur, löndunaraðstöðu og gámaflutningastarfsemi. Jafnframt er stefnt á enn frekari markaðshlutdeild í frystiflutningum í Eystrasaltslöndunum og Asíu.