Samskip hafa opnað söluskrifstofu í Helsingjaborg í Svíþjóð og er það jafnframt þriðja skrifstofa félagsins þar í landi, segir í tilkynningu. Fyrir voru Samskip með söluskrifstofur í Gautaborg og Varberg.

Með opnun söluskrifstofunnar í Helsingjaborg styrkja Samskip enn frekar stöðu sína á Svíþjóðarmarkaði en félagið býður upp á vikulegar siglingar frá Varberg til Íslands, með viðkomu í Árósum og Þórshöfn í Færeyjum.

Samskip eru einnig með umfangsmikla gáma- og lestarflutninga milli Svíþjóðar og meginlands Evrópu sem og austur á bóginn, til Eystrasaltslandanna og Rússlands.

Yfirmaður skrifstofunnar í Helsingjaborg verður Daninn Erik E. Hansen. Hann sinnti Evrópuflutningum hjá Mærsk skipafélaginu í Gautaborg, áður en hann gekk til liðs við Samskip.

Með tilkomu Helsingjaborgarskrifstofunnar eru söluskrifstofur Samskipa orðnar 56 talsins í fjórum heimsálfum, auk umboðsmanna víða um heim.