Ný þjónustuskrifstofa Samskipa tók til starfa í Úkraínu um áramótin og heyrir rekstur hennar undir Samskip GmbH., dótturfyrirtæki félagsins í Þýskalandi.

Úkraínuskrifstofan er staðsett í höfuðborginni Kiev og er henni ætlað að sinna ört vaxandi starfsemi félagsins á þessu markaðssvæði, sérstaklega ýmis konar stórflutningum frá höfnum í Vestur- og Norður-Evrópu til Úkraínu og hafna við Kaspíahaf og Svartahaf, að sögn Haralds Dönselmanns, framkvæmdastjóra Samskipa í Þýskalandi. Einnig skapist fjölmörg ný viðskiptatækifæri með tilkomu Úkraínuskrifstofunnar því mikill uppgangur sé í landinu, sem sjáist best á því að verg landsframleiðsla jókst um 9,4% árið 2003 og áætlaður vöxtur í fyrra var 12,4% segir í tilkynningu félagsins.

Náið samstarf verður við skrifstofur félagsins í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum til að ná fram sem mestri hagkvæmni. Verða starfsmenn Samskipa í Úkraínu þrír talsins til að byrja með. Yfirmaður þar er Vladislav Bogomazov en hann starfaði hjá þýskri flutningamiðlun áður en hann réðst til Samskipa.