Flutningafyrirtækið Samskip hefur opnað skrifstofu í Seoul í Suður-Kóreu, segir í fréttatilkynningu, og er skrifstofan er sú fimmta í Asíu.

Samskip er einnig með skrifstofur í Pusan í Suður-Kóreu, Dalian og Qingdao í Kína og Ho Chi Minh í Víetnam. Skrifstofur Samskipa eru þá orðnar 56 í 22 löndum.

Fyrirtækið segir að skrifstofan muni sinna almennri flutningsmiðlun en einnig frystiflutningum á svæðinu líkt og aðrar skrifstofur Samskipa í álfunni.

"Frystiflutningar til og frá Asíu hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum og við höfum upplifað mikla aukningu hjá okkur. Starfsemi Samskipa í Asíu hefur gengið afar vel og teljum við að með opnun skrifstofunnar í Seoul getum við aukið þjónustuna enn frekar við viðskiptavini okkar. Það stefnir allt í að við opnum fleiri skrifstofur í álfunni á næstunni," segir Einar Þór Guðjónsson, framkvæmdastjóri frystivöruflutninga hjá Samskipum erlendis.

Yfirmaður skrifstofunnar í Seoul er Young-Hak Kim og segir í tilkynningunni að hann mikla reynslu af flutningastarfsemi í Asíu. Hann heyrir undir skrifstofu Samskipa í Pusan í Suður-Kóreu.