Samskip hafa styrkt stöðu sína enn frekar í frystivöru- og flutningsmiðlun í Suður-Ameríku með samstarfssamningum við argentínska flutningafélagið Transaltic SA annars vegar og brasilíska flutningafélagið Unitrader International hins vegar að því er kemur fram í tilkynningu.

Viðræður við forsvarsmenn argentínska félagsins höfðu staðið yfir í um ár áður en formlegur samstarfssamningur var undirritaður í þessum mánuði. Transaltic var stofnað árið 1999 og annast bæði frystivöru- og gámaflutninga til og frá Argentínu, auk annarrar skyldrar starfsemi, s.s. vöruhúsaþjónustu, rekstur frystigeymslna og landflutninga. Forstjórar Transaltic eru Guillermo Japas og Rodolfo Garcia Pineiro og eru starfsmenn nú 12 talsins.

Að sögn Peder Winther, framkvæmdastjóra frystivöruflutningasviðs Samskipa, vænta bæði félögin mikils af samstarfinu og þeim samlegðaráhrifum sem fylgja því að tengja saman þjónustunet Samskipa og Transaltic.


Samhliða því að Samskip hasla sér völl í Argentínu hefur félagið einnig fært út kvíarnar í Brasilíu með samstarfssamningi við flutningafélagið Unitrader International sem er með höfuðstöðvar í Sao Paulo. Félagið, sem var stofnað árið 1994 af Alfonso Castellucci, rekur einnig skrifstofur í borgunum Petrolina, Recife og Itajai og hefur það sérhæft sig í flutningum á ávöxtum og grænmeti, pappír, plastvarningi og baðmull.

Samskip opnuðu tvær skrifstofur í Brasilíu í fyrra, í Salvador og Petrolina, og segir Peder Winther að með tilkomu samkomulagsins við Unitrader geti félagið nú boðið viðskipavinum sínum upp á enn betri og víðtækari þjónustu.

Á Salvadorskrifstofu Samskipa verður aðaláherslan lögð á þróun og uppbyggingu hinna ört stækkandi kæli- og frystiflutninga með ávexti og grænmeti. Þar opnast nýir markaðir með samstarfinu við Unitrader auk samlegðaráhrifa í hefðbundnum gámaflutningum félaganna beggja.