Grikkland hefur bæst við þjónustunet Samskipa í Evrópu eftir að félagið hóf vöruflutninga frá Rotterdam og Mannheim til Aþenu og Þessalóníku í samstarfi við Carel Ltd., eitt stærsta flutningafyrirtæki Grikklands. Með Grikklandsleiðinni þéttist þjónustunet Samskipa í Evrópu og nýir flutningsmöguleikar opnast fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Notast er að mestu við lestar á Grikklandsleiðinni, en þær hafa reynst hagkvæmur og umhverfisvænn kostur í samanburði við flutninga með skipum og bílum, ekki síst vegna síhækkandi olíuverðs. Lestarnar eru fljótari í förum en skipin auk þess sem umferð um höfnina í Piraeus, stærstu hafnarborg Grikklands, hefur reynst bæði hæg og erfið.

Samskip stundaði þegar lestarflutninga milli fjölmargra Evrópulanda, s.s. Spánar, Þýskalands, Svíþjóðar, Rússlands, Póllands og Ítalíu, að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu, og hefur Grikkland nú bæst í þann hóp.