Samskip hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á 50% hlut í færeyska fyrirtækin Safari Transport, segir í tilkynningu.Kaupverðið er trúnaðarmál.

?Safari Transport er leiðandi flutningsmiðlun með sex starfsmenn og eru kaupin liður í því að styrkja enn frekar markaðsstöðu okkar í Færeyjum og efla þjónustuna þar almennt við viðskiptavini okkar,? segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa.

Tvö ár eru um þessar mundir frá því Samskip hófu siglingar að nýju til og frá Færeyjum. Fyrirtækið segir að mikill uppgangur hafi einkennt starfsemina og stefna stjórnendur Samskipa að því að ná sömu markaðshlutdeild í Færeyjum og félagið er með á Íslandi.

Samskip hafa nú viðkomu tvisvar sinnum í viku í Færeyjum, í Þórshöfn og Klakksvík, á siglingaleiðinni milli Íslands, Bretlandseyja og meginlands Evrópu. Þá keypti félagið á liðnu ári frystigeymslu Kloosterboer í Kollafirði og nú bætist við helmingshlutur í Safari Transport.

Samstarfið styrkir einnig verulega stöðu Safari Transport því viðskipavinir geta nýtt sér þjónustu Samskipa, hvort sem er í Evrópu, Asíu eða Bandaríkjunum. Samskip eru nú með 55 skrifstofur í 22 löndum í þessum þremur heimsálfum, auk þess sem umboðsaðilar eru um allan heim.

Starfsmenn Samskipa í Færeyjum voru níu talsins, fjórir á skrifstofu félagsins í Þórshöfn og fimm í Kollafirði, og eru því orðnir 15 talsins eftir kaupin á Safari Transport. Alls eru starfsmenn Samskipa um 1.400 talsins, þar af um 700 á Íslandi.