Samskip hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar RÚV í gærkvöldi um að Samkeppniseftirlitið hefði kært félagið og Eimskip til embættis sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð.

Segir í tilkynningunni að félagið vísi á bug þeim ásökunum um samkeppnisbrot sem fram komu í umfjölluninni. Fyrir liggi að Samkeppniseftirlitið hefði ákveðið í september 2013 að hefja rannsókn á Samskipum en engar niðurstöður liggi fyrir úr þeirri athugun.

Segir jafnframt að félaginu sé ekki kunnugt um að ákvörðun hafi verið tekin um rannsókn málsins hjá sérstökum saksóknara og engin ákæra hafi verið gefin út á hendur forstjóra félagsins né öðrum starfsmönnum. Í því ljósi telji félagið ekki rétt að tjá sig frekar um málið.