Ferill Bergdísar Ellertsdóttur, sendiherra og skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, er fjölbreyttur.

„Ég hef fengist við flestallt sem undir ráðuneytið heyrir, viðskiptamál, upplýsingamál, öryggismál, alþjóðamál og þróunarmál. Fyrstu árin starfaði ég við EES málefni á viðskiptaskrifstofu eða þar til ég fór til Bonn sem sendiráðsritari og þaðan til starfa hjá Atlantshafsbandalaginu. Í kjölfar þess vann ég við öryggis- og varnarmál um nokkurt skeið en fluttist síðan yfir í viðskiptamál á ný. Um tveggja ára skeið var ég ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkis- og varnarmálum, en varð síðan skrifstofustjóri alþjóðamála og síðar sviðsstjóri.“ Bergdís segir utanríkisþjónustuna hafa gjörbreyst á þeim tíma sem hún hefur starfað í henni, eins og reyndar þjóðfélagið allt. „Þegar ég byrjaði vorum við á tveimur hæðum á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og starfið var í nokkuð föstum og hefðbundnum skorðum. Maður bar óttablandna virðingu fyrir yfirmönnum og konur voru fáar meðal sérfræðinga og enn færri meðal sendiherra. Nú eru konurnar mun fleiri og starfið og starfsemin hefur breyst í takt við tæknibyltingar og auknar kröfur, ekki aðeins á Íslandi, heldur í heiminum öllum. Ungt fólk nú hefur almennt miklu meira sjálfstraust og gamaldags umgengnisvenjur eru að hverfa. Utanríkisráðuneytið er meira spennandi og fjölbreyttari starfsvettvangur en áður og starfsemin hefur tekið stakkaskiptum.“

Aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA

Árið 2007 urðu kaflaskil hjá Bergdísi en þá bauðst henni staða aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA og sinnti hún því starfi í fimm ár. Hún er nú komin heim í utanríkisráðuneytið og hefur síðustu tvö árin séð um viðskiptasamninga og leiddi sterkan hóp úr öllu Stjórnarráðinu á lokaspretti fríverslunarviðræðna við Kína. Næstu verkefni viðskiptaskrifstofu eru að halda áfram að meta og kortleggja viðskiptahagsmuni Íslands víða um heim. „Þessa stundina erum við ásamt kollegum okkar í EFTA að semja við fríverslun við allmörg ríki og fleiri viðræður eru í deiglunni. Við lítum til Asíu en einnig hyggjumst við beina sjónum okkar í sterkari mæli að nágrönnum okkar á Grænlandi og í Færeyjum. Þá er óplægður akur víða í Suður-Ameríku og hið sama á við um Afríku. Við erum í nánum tengslum við einstaklinga og fyrirtæki sem eru í viðskiptum eða hyggja á viðskipti þegar við metum sóknarfærin gagnvart ákveðnum mörkuðum. Bandaríkin skipta okkur gífurlegu máli og við fylgjumst grannt með viðræðum þeirra og ESB um þessar mundir og leitumst við að meta hvaða áhrif sú þróun geti haft á hagsmuni íslenskra inn- og útflytjenda. Annars ber hver dagur eitthvað óvænt í skauti sér og oft gerist það að ófyrirsjáanleg verkefni taka mestan tíma.“

Allt lagt í sölurnar að verja ímynd og málstað Íslands

Spurð hvernig ástandið var á hennar starfsvettvangi þegar hrunið skall á þjóðinni haustið 2008 segir hún álagið hafa verið mikið „Starfsemi utanríkisþjónustunnar fór á hvolf og starfsfólk lagði nótt við dag við að aðstoða Íslendinga erlendis, koma upplýsingum til stjórnvalda og stofnana, funda með fulltrúum annarra ríkja og svo mætti lengi telja. Ég var á þessum tíma aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA en fór ekki varhluta af því mikla álagi sem var á kollegum mínum mánuðina eftir hrun. Allt var lagt í sölurnar til að verja ímynd og málstað Íslands. Almennt má segja að álag hafi aukist í kjölfar hrunsins. Niðurskurður og sparnaður hefur ávallt verið á dagskrá utanríkisráðuneytisins og sér ekki fyrir endann á því. Þó má segja að hrunið og blessaður Eyjafjallajökull hafi aukið áhuga og þekkingu á Íslandi á erlendri grundu, sem gagnast okkur nú.“

Ísland lítið og opið hagkerfi

Bergdís segir utanríkisþjónustuna hafa tekið gífurlegum breytingum á undanförnum árum. „Þar vegur þyngst hversu hratt upplýsingar berast milli landa og þáttur samfélagsmiðla og fleira. Hins vegar eru reglubundin og náin samskipti milli ríkja mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Hið víðtæka tengslanet utanríkisþjónustunnar er tæki sem grípa má til þegar á þarf að halda. Slíkt net er ekki myndað á einni nóttu. Samkeppni ríkja um athygli á alþjóðavettvangi er gífurleg og sú sérstaða sem Íslandi hefur tekist að marka, meðal annars með fjölbreyttu og öflugu starfi sendiráða okkar, skiptir verulegu máli. Ísland er lítið og opið hagkerfi, tengsl og samskipti við önnur ríki er lífæð okkar og þess vegna mun utanríkisþjónustan verða mikilvæg um ókomna tíð,“ segir Bergdís. Sem barn var hugurinn ávallt tengdur við umheiminn að sögn Bergdísar og hún stefndi alltaf að lífi í utanríkisþjónustunni, óafvitandi kannski: „Án þess að hafa nokkra tengingu við utanríkisráðuneytið eða útlönd, enda alin upp á þeim tíma þegar utanfarir heyrðu til undantekninga, var það ávallt minn draumur að verða diplómat eða sendierindreki. Kannski hefur Beverly Gray átt þar hlut að máli. Ég hef þannig verið mjög lánsöm. Þegar ég á sínum tíma sat með umsóknareyðublöð vegna háskólanáms í Þýskalandi í höndunum vissi ég hins vegar ekki hvort ég ætti að velja stjórnmálafræði eða listfræði. Ugla sat á kvisti. Hitt draumastarfið hefði verið safna- og sýningarstjóri,“ segir Bergdís.

Rætt er við Bergdísi í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fiimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .