„Samtalið er á öðrum nótum og betra,“ sagði Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands, um samskipti atvinnulífsins við ríkisstjórnina nú miðað við fyrri ríkisstjórn. Þetta sagði hann í Morgunútvarpi Rásar 2.

Hann sagði þó að menn hefðu átt von á frekari útspilum af hálfu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Nefndi hann lækkun tryggingagjalds sem dæmi. „Líka bara af því að atvinnuleysi hefur minnkað,“ sagði hann. „Það er svolítið þannig að menn hafa verið að bíða eftir útspilum og áttu von á því að eitthvað væri að fara að gerast,“ sagði Hreggviður.

Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands fór fram á miðvikudag. Jóhanna Sigurðardóttir sótti jafnan ekki Viðskiptaþing en Sigmundur Davíð sótti þingið núna.