*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 21. júlí 2019 18:01

Samskiptin við SKE súrrealísk

„Í stjórnsýslulögum er svokölluð málshraðaregla sem er þannig að stofnunum ber að gefa út ákvörðun í máli eins fljótt og auðið er."

Magdalena A. Torfadóttir
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Unnsteinsson, framkvæmdastjóri Hringiðunnar og formaður Inter, segir að Síminn stundi það að samtvinna þjónustu og brjóti þar með samkeppnislög. Hann furðar sig jafnframt á því hvað það taki Samkeppniseftirlitið langan tíma að fá niðurstöðu í málið.

„Við erum búnir að ítreka ábendingar okkar og kvartanir nokkrum sinnum,“ segir hann. „Það sem Síminn og Sýn eru að gera er að þau eru að samtvinna alls konar þjónustu og selja hana í einum pakka. Ég er sannfærður um að þetta sé ekki hollt fyrir fjarskiptamarkaðinn. Þetta er komið langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.“

Hann bætir við að Hringiðan hafi óskað eftir því að fá að dreifa Sjónvarpi Símans um eigið fjarksiptakerfi en Síminn varð ekki við þeirri beiðni. „Á sínum tíma þegar Sjónvarp Símans var að ryðja sér til rúms átti að tryggja að neytendur gætu keypt internetþjónustu af hvaða fjarskiptafyrirtæki sem er en jafnframt fengið Sjónvarp Símans afhent. Þessu  hefur aftur á móti ekki verið fylgt eftir.“

Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu, segir það vera súrrealískt að eiga í samskiptum við stofnun sem svari ekki erindum.

„Í stjórnsýslulögum er svokölluð málshraðaregla sem er þannig að stofnunum ber að gefa út ákvörðun í máli eins fljótt og auðið er og ef þær geta það ekki verður að liggja fyrir formlegt svar við því hvers vegna svo sé. Við höfum margoft bent Samkeppniseftirlitinu á þessa reglu en þeir hafa aldrei hlustað.“

Hann bætir við að það síðasta sem þeir fengu að heyra frá Samkeppniseftirlitinu var svar í byrjun apríl. „Í því svari stóð að frekari upplýsinga væri að vænta í þessari eða næstu viku. Það var í apríl en nú er kominn júlí og enn hefur ekkert heyrst frá þeim.“

Björn segir að þegar Síminn hafi keypt Skjá 1 á sínum tíma hafi samþykki frá Samkeppniseftirlitinu á þeim kaupum verið háð ákveðnum skilyrðum. „Það er ekki enn búið að fella þau skilyrði úr gildi að mér vitandi. Það átti að tryggja að hver sem er átti að geta nálgast þessa þjónustu frá Símanum óháð því frá hvaða fyrirtæki viðskiptavinur keypti nettenginuna sína.“

Björn bætir við að á sínum tíma hafi Síminn gert sátt við Samkeppniseftirlitið og borgað 300 milljónir króna í stjórnvaldssekt en hafi ekki játað að hafa brotið af sér. „Mér þykir ekki í lagi að þeir borgi þessa sekt en haldi síðan áfram að brjóta af sér eins og ekkert hafi í skorist. Svo sitjum við líka óbættir eftir þessi brot en við höfum nú stefnt Símanum og krafist þess að fá um 30 milljónir í bætur.“

Hann segir  jafnframt að þó Sýn og Nova hafi einnig tekið upp á því að bjóða upp á frítt net í 2-3 mánuði til að sækja nýja viðskiptavini sé það aðeins svar við tilboði Símans.

„Vegna þess að Samkeppniseftirlitið hefur látið þetta framferði Símans viðgangast hafa fleiri fyrirtæki sem hafa kvartað yfir þessu verið tilneydd til að bjóða líka upp á þetta. En minni fyrirtæki eins og okkar geta ekki boðið upp á þetta þar sem þau reka ekki öll farsímaþjónustu. Það er klárt mál að hvorki Nova né Sýn áttu frumkvæði að þessu heldur var það Síminn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.