Forsvarsmenn Samsonar eignarhaldsfélags geta ekki gert grein fyrir lánum eða fyrirgreiðslum fyrir meira en tvo milljarða króna til að minnsta kosti sex félaga í eigu Björgólfsfeðga á Tortóla, Kýpur og Lúxemborg sem skráð eru í bókhaldi félagsins.

Í skýringum helstu stjórnenda Samsonar til skiptastjóra þrotabús félagsins segja þeir að eini maðurinn sem hefði upplýsingar um lánveitingarnar væri fyrrum framkvæmdastjóri Samsonar. Hann hefði þó fengið heilablóðfall árið 2007 og í kjölfarið hætt störfum hjá félaginu.

Í skriflegu svari Ásgeirs Friðgeirssonar, talsmanns Samsonar, til blaðamanns sem sent var í fyrra segir orðrétt að „... sá góði maður var þeirrar gerðar að hafa allt á hreinu en var lítið fyrir að deila því með öðrum.“

Einu gögnin sem til eru um þessi lán í bókhaldi Samsonar er einn óundirritaður lánasamningur til Opal Global Holding um lán til þeirra upp á 580 milljónir króna.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .