Skiptastjóri í þrotabúi Samsons eignarhaldsfélags ehf. hefur án árangurs óskað eftir upplýsingum um greiðslur til Opal Global Invest sem staðsett er á Tortola-eyju í Karabíska hafinu. Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að til félagsins runnu 580 milljónir króna.

Samson eignarhaldsfélag var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember síðastliðinn samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og var kröfulýsingafrestur til 21. janúar.

Skiptastjóri hefur gert kröfuhöfum grein fyrir stöðu mála í skýrslu sinni. Lýstar kröfur eru um 180 milljarðar króna en þegar tekið hefur verið tillit til tvílýsinga og þess að krafa vegna ábyrgða tengdar Eimskipafélaginu upp á 35 milljarða króna hefur verið felld út standa eftir á milli 80 og 90 milljarðar króna. Ljóst er að þetta er eitt stærsta þrotabú sem hér hefur verið tekið til skipta.

Oft rýrar upplýsingar í bókhaldi

Í skýrslunni eru tilteknar ýmsar aðrar kröfur sem búið reynir að innheimta. Þar má nefna greiðslur að fjárhæð 12 milljónir dollara til Bell Global Lux, sem sagðar eru til kaupa á hlutabréfum félags um hafnarverkefni í Pétursborg og lán til Fjárfestingafélagsins Grettis ehf. upp á 393 milljónir króna.

„Erfitt hefur reynst að nálgast upplýsingar um sumar þessara greiðslna og þá aðila sem hafa þegið þær, enda í mörgum tilfellum um frekar rýrar upplýsingar að ræða í bókhaldi,“ segir í skýrslu skiptastjóra.