*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 27. febrúar 2006 11:17

Samson kaupir danskt fasteignafélag

Ritstjórn

Eignarhaldsfélagið Samson hefur keypt hlut í danska fasteignafélaginu Sjælsø Gruppen, segir í frétt danska viðskiptablaðsins Børsen. Þar segir að íslenskir fjárfestar hafi enn áhuga á dönskum fasteignafélögum, þrátt fyrir spár um að það muni draga úr verðhækkunum á þessu ári.

Í frétt Børsen segir að Samson hafi keypt 25,1% hlut í danska fasteignafélaginu í samvinnu við eignarhaldsfélagið Rønje Holding, og að félögin hafi stofnað sérstakt eignarhaldsfélag til að halda utan um eignarhlutinn. Nýja eignarhaldsfélagið nefnist SG Nord Holding.

Talsmaður Samson, Þór Kristjánsson, segir í samtali við Børsen að markmið kaupanna sé að styrkja markaðsstöðu Sjælsø Gruppen enn frekar.

Íslendingar hafa verið umsvifamiklir á dönsku fasteignamarkaði síðustu vikur og mánuði. Baugur hefur fjárfest í þremur dönskum fasteignafélögum og nýlega stofnaði Straumur-Burðarás fasteignafjárfestingafélag, sem eygir kaup á dönskum fasteignum.

Aðilar á fjármálamarkaði í Danmörku spá því að hækkanir á fasteignamarkaði í landinu dragist saman á þessu ári, en fasteignaverð í Danmörku hefur hækkað snarpt síðustu ár.

Greiningaraðilar spá 5% hækkun fasteignaverðs á árinu, samanborið við 22% hækkun í fyrra. Fjármálasérfræðingar segja að hækkandi vaxtastig muni leiða til þess að hægist á verðhækkunum á þessu ári.