Kauptilboði Samson Properties, fasteignafélags í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, í fasteignafélagið Kapiteeli, sem er í eigu finnska ríkisins, hefur verið hafnað þrátt fyrir að hafa verið rúmlega 50 milljónum evra hærra en kauptilboð finnska keppinautarins Sponda.

Kauptilboð Sponda í Kapiteeli nemur 1,3 milljörðum evra, ásamt skuldum, sem samsvarar tæplega 112 milljörðum íslenskra króna.

Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Samson Properties, hefur gagnrýnt ákvörðun finnskra stjórnvalda og segir það koma sér á óvart að stjórnvöld í Finnlandi hafi ákveðið að selja fyrirtækið til Sponda, en finnska ríkið á um 33% hlut í Sponda.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Samson Properties, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið væri að skoða stöðu sína. Hann vildi ekki tjá sig frekar um næstu skref Samson Properties. Í yfirlýsingu frá Sveini kemur fram að fyrirtækið hafi áhuga á því að leita réttar síns.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Finnlands, neitar fjármálaráðuneyti landsins því að ekki hafi verið farið eftir settum reglum við einkavæðinguna og segir að besta tilboðinu hafi verið tekið.

Fjármálaráðuneytið bendir á að aðrir þættir, auk verðs, hafi leitt til þess að kauptilboði Sponda hafi verið tekið. Ekki hefur komið fram hvaða þættir það eru sem réðu úrslitum.

Heimildarmenn finnska viðskiptablaðsins Kauppalehti segja að finnskir stjórnmálamenn hafi ekki viljað selja Kapiteeli til Íslendinganna og telja pólitískar ástæður að baki ákvörðun ríkisins um að selja Kapiteeli til Sponda.

Kauppalethi segir að Jarmo Vaisanen hafi komið í veg fyrir söluna til Samson Properties, en hann er varaformaður í stjórnum Sponda og Kapiteeli. Kauptilboði Sponda í Kapiteeli í var formlega tekið á föstudaginn í síðustu viku.