Samkvæmt ungverskum fjölmiðlum hafa fjögur tilboð borist í stærsta flugfélag landsins, Malev að undanförnu. Fram kemur að hópur Íslendinga séu meðal þeirra sem hafi áhuga á félaginu og hafi nú þegar lagt inn kauptilboð. Kaupendur þurfa þó að taka yfir skuldir félagsins sem nema um 36,2 milljörðum Forints eða 12,7 milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins kannast Samson hópurinn við að hafa skoðað félagið. Hópurinn sendi þó ekki inn tilboð og ætlar sér ekki að gera það á næstunni. Fyrr á þessu ári var fyrirtækið kynnt fyrir hópnum en ákveðið var að bíða með málið þar sem Samson-menn höfðu nóg á sinni könnu í bili. Óhætt er að segja að þeir félagar hafi verið duglegir við að leita nýrra tækifæra, sérstaklega í Austur-Evrópu, og var Malev einn af mörgum möguleikum sem var kynntur fyrir þeim Björgólfum og Magnúsi Þorsteinssyni. Ekki er útilokað að þeir félagar muni skoða félagið betur þegar fram líða stundir.

Malev var stofnað af ungverska ríkinu fyrir hálfri öld síðan og var alfarið í eigu ríkisins fram til ársins 1992 þegar 30% af félaginu var selt til ítalska flugfélagins Alitalia. Þá keypti fjárfestingasjóðurinn Simest einnig 5% í félaginu á þeim tíma. Árið 1999 keypti ríkið síðan félagið að fullu aftur og hefur verið í eigu þess allar götur síðan. Ríkið reyndi þó að einkavæða félagið árið 2000 að nýju en án árangurs þar sem það fékk ekki þá upphæð fyrir flugfélagið sem það vildi. Meðal hugsanlegra kaupenda á því tímabili voru KLM, Swissair, SAS og Air France en ekkert þessara félaga hefur þó áhuga lengur á að eignast Malev. Þess má geta að KLM er nú í eigu Air France.

Eigið fé Malev var í lok árs 2003 113,8 milljarðar ungverskra Forints eða sem nemur 40 milljörðum íslenskra króna. Félagið hefur vaxið á undanförnum árum en alls störfuðu í lok síðasta árs 2830 manns hjá félaginu en voru 2701 árið áður. Alls starfar Malev í 35 löndum um allan heim og þó svo Austur-evrópsk flugfélög hafi það orð á sér að vera með lélegar rússneskar vélar í flotum sínum er það síður en svo hjá Malev. Þeir eru aðallega með vélar af gerðinni 737 eins og Iceland Express notar og 767 vélar eins og Icelandair mun taka á leigu á San Francisco leiðum sínum í vetur. Alls rekur Malev 28 vélar. Malev er stærsta flugfélagið á Mið-Evrópu markaði og verður spennandi að sjá hvort Íslendingar nái því á sitt vald með tímanum.