Töskuframleiðandinn Samsonite hefur nú samþykkt að festa kaup á Tumi, samkeppnisaðila sem framleiðir töskur í dýrari kantinum, fyrir um 1,8 milljarð Bandaríkjadala eða 234 milljarða íslenskra króna.

Með kaupunum vill Samsonite koma sér inn á lúxustöskumarkaðinn. Hagnaður Tumi á síðasta ári var í kringum 548 milljónir Bandaríkjadala, sem eru um 71 milljarður króna.

Gengi hlutabréfa Tumi hefur hækkað um 35% í vikunni eftir að orðrómar byrjuðu að ganga um þessi kaup Samsonite á félaginu.

Markmið Samsonite er að víkka út markaðshlutdeild Tumi á mörkuðum öðrum en þeim í Bandaríkjunum, eins og til að mynda í Asíu.