Samspil vindorku og vatnsorku er ein dýrmætasta auðlind Íslands og er afar mikilvægur þáttur í allri umræðu um sæstreng til Bretlands. Þetta er mat Jóns Skafta Gestssonar, orku- og umhverfishagfræðings hjá Lotu, en Lota er nýtt nafn sameinaðrar verkfræðistofu VJI og VSI. Jón bendir á að vatnsorkuver og gasorkuver séu einu tegundir orkuvera þar sem hægt er að stýra framleiðslunni í rauntíma, en vindorkuframleiðsla fari aftur á móti eftir veðri. Útflutningur raforku til Bretlands skapi mikil tækifæri í þessu samhengi.

„Með sæstreng erum við allt í einu farin að sjá vindorku farna að verða raunverulegan kost á Íslandi. Vindorka hefur þann eiginleika að það kostar ekkert að framleiða hana þegar þú ert búinn að setja upp staurana. Hún hefur líka þann galla að þú getur ekki treyst á hana. Það hefur yfirleitt þurft varaaflstöðvar, sem hafa í flestum löndum verið gasorkuver. Það leggur náttúrulega alls konar kostnað á kerfið,“ segir Jón.

„Ef við erum með lón hérna sem við getum bara safnað í þegar vindurinn blæs, þá getum við keyrt aðeins meira á vatnsaflsvirkjununum í þau fáu skipti sem er logn hér á Íslandi. Þetta samspil er verðmæt auðlind, ef svo má segja. Verðmætt samspil og eitthvað sem engin önnur þjóð, svo ég þekki, hefur í svipuðu magni og við,“ segir hann.

Aukinn sveigjanleiki

Hægt er að ná meira afli úr vatnsaflsvirkjunum landsins með því að dæla meira vatni í gegnum þær. Víða þyrfti að fjölga túrbínum til að framleiða meira rafmagn en í sumum virkjunum, meðal annars Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun, er hægt að ná meira afli án þess að fjölga túrbínum. Þetta gæti þó krafist þess að hægt sé að hvíla virkjanirnar inn á milli til þess að uppistöðulón tæmist ekki of fljótt. Það væri til dæmis hægt á tímum þar sem er mikil vindorkuframleiðsla.

Víða erlendis er vatni dælt aftur upp í uppistöðulón þegar verð á rafmagni er lágt, sérstaklega um nætur. Aðspurður segir Eymundur Sigurðsson, sviðsstjóri orkusviðs hjá Lotu, að raunhæfur möguleiki sé að koma upp dælubúnaði við þær virkjanir sem þegar eru til staðar hér á landi. Á sínum tíma hafi Norðlingaölduveita verið hönnuð með slíkum dælubúnaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .