Á óformlegum fundi fastafulltrúa hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, sem lauk síðdegis í dag tilkynnti frú Amina Mohamed, fastafulltrúi Kenía og formaður aðalráðsins, að lokið væri samráðsferli til að velja næsta framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Eftir víðtækt samráð við öll aðildarríkin væri ljóst að líklegast væri að almenn samstaða gæti náðst um Pascal Lamy, frambjóðandi Frakklands.

Fastafulltrúi Kenía upplýsti að hún myndi tilkynna aðalráðinu þessa niðurstöðu á næsta formlega fundi þess 25. - 26. maí n.k. og leggja til að formleg ákvörðun yrði tekin um skipun Lamy sem næsta framkvæmdastjóra á þeim fundi. Öll aðildarríki WTO þurfa að samþykkja nýjan framkvæmdastjóra segir í frétt í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Ef þetta gengur eftir mun Pascal Lamy hefja störf 1. september n.k. en þá lýkur skipunartíma núverandi framkvæmdastjóra, Dr. Supachai frá Taílandi. Þess má geta að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti síðast liðinn
miðvikudag skipan hans í stöðu framkvæmdastjóra UNCTAD, viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Í samtali við Stiklur sagði Stefán Haukur Jóhannesson, fastafulltrúi Íslands í Genf, að það væri ánægjulegt að svo virtist sem samstaða myndi nást um Lamy. Ísland hafi stutt framboð hans og telji hann afar vel til þess fallinn að taka við forystuhlutverki hjá WTO. Doha-viðræðurnar væru á viðkvæmum tímapunkti og öflug forysta skipti því miklu máli. Stefán Haukur sagði jafnframt að valferlið hefði allt gengið mun betur en menn hefðu þorað að vona. "Fyrirfram var óttast að aðildarríkin myndu skipast í fylkingar bakvið
frambjóðendurna og að valið gæti snúist upp í norður suður ágreining sem gæti grafið undan Doha viðræðunum á mjög viðkvæmum tíma.?

Við lok framboðsfrestar 31. desember sl. höfðu borist fjögur framboð; frá Frakklandi, Úrúgvæ, Brasilíu og Máritíus. Undir lokin stóð valið á milli fulltrúa Frakklands og Úrúgvæ.

Fastafulltrúi Úrúgvæ hjá WTO tilkynnti í dag að Úrúgvæ drægi framboð sitt tilbaka. Þess skal getið að rík áhersla er lögð á að aðildarríki WTO nái samstöðu um framkvæmdastjóra svo ekki komi til kosninga. Valferlið tók nokkra mánuði. "Enda stóð valið á milli fjögurra mjög hæfra frambjóðenda? sagði Stefán Haukur í samtali við Stiklur.

Pascal Lamy er 57 ára að aldri og er með meistaragráðu í hagfræði og stjórnmálafræði frá ,,Ecole des Hautes Etudes Commerciales, Institut d'Etudes Politiques? og lauk einnig prófi með láði frá ,,Ecole Nationale d'Administration? en báðir skólarnir eru í París. Lamy er ennfremur með diplómu í æðri lögvísindum. Sem stendur leggur Lamy stund á fræði- og
ráðgjafarstörf en hann hefur nýverið látið af störfum sem framkvæmdastjóri viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB, en því embætti gegndi hann frá 1999 til 2004. Árin áður en Lamy settist í framkvæmdastjórn ESB tók hann þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu franska bankans Credit Lyonnais og varð seinna stjórnarformaður hans. Lamy var "chef du cabinet" hjá Jacques Delors, forseta framkvæmdstjórnar EB 1985 til 1994 en þar undan gegndi Lamy ýmsum störfum í frönsku
stjórnsýslunni með áherslu á efnahagsmál.

Byggt á Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.