Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra ættu þegar að segja af sér. Telur hann einsýnt að þeim sé ekki sætt sem ráðherrum eftir yfirlýsingar þeirra í gær.

Sakar ráðherra um ábyrgðarleysi

Þá sögðu ráðherrarnir tveir að gerbreytt ástand í þjóðfélaginu gerði það að verkum að boða yrði til kosninga í vor, svo Alþingi fengi endurnýjað umboð. Jón sagði að ljóst væri af þessu að ráðherrarnir tveir risu ekki undir því að taka þátt í því brýna uppbyggingastarfi, sem hefjast þyrfti þegar í stað. Það mætti ekki tefja með kosningabaráttu, nóg væri af erfiðum úrlausnarefnum samt.

„Mér finnst ábyrgðarleysi af ráðherrum í ríkisstjórninni að tala með þeim hætti sem þau gerðu í gær,“ sagði Jón. „Mér finnst að bankamálaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi öðrum hnöppum að hneppa við endurreisn bankakerfisins en að vera í kosningabaráttu.“ Taldi hann ráðherrana með þessu vera að sýna á sér þreytumerki og fyrst þau treystu sér ekki til verkanna yrðu aðrir að koma að þeim.

Ástæða til uppstokkunar í stjórninni

Jón var spurður hvort hið sama mætti ekki segja um suma ráðherra sjálfstæðismanna og játti hann því. Sagði hann að full ástæða væri fyrir forystumenn ríkisstjórnarinnar til þess að stokka upp í sínu liði, nú reyndi á aðra hæfileika en þegar til stjórnarinnar var stofnað. Það taldi hann eiga jafnt við um ráðherra og embættismenn í stofnunum á vegum ríkisins.

Innan ríkisstjórnarinnar hafa risið meiri úfar síðustu dægrin, en þó öllum hafi verið ljós ágreiningur innan stjórnarliðsins um ýmis veigamikil mál, hafa gagnkvæmar áskoranir um afsagnir og stjórnarslit ekki heyrst fyrr en nú.

Geir undrandi á orðum samráðherra

Geir H. Haarde forsætisráðherra lýsti í gær undrun sinni á orðum Björgvins og Þórunnar og kvaðst ekkert kosningatal hafa heyrt í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar. Taldi hann slíkt tal ábyrgðarlaust, enda hefðu stjórnarflokkarnir verið að smíða aðgerðaáætlun til að bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu samhliða styrkingar hagkerfisins með láninu frá IMF. Sú áætlun yrði að halda lengur en til vors.

Innan Samfylkingar hefur einnig borið á gagnrýni á ríkisstjórnina og hafa sumir málsmetandi menn innan flokksins lýst þeirri skoðun að stjórnarsamstarfinu beri að slíta. Aðrir atkvæðamiklir samfylkingarmenn hafa beint spjótum sínum sérstaklega að Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra, en sú ádeila virðist ekki síður bera keim af innanflokksátökum en af álitaefnum um aðdraganda og úrlausn kreppunnar.

Vantrauststillaga á leiðinni

Stjórnarandstaðan hefur rætt að borin verði fram sameiginleg vantrauststillaga á ríkisstjórnina, sem til þessa hefur ekki þótt svara kostnaði, enda ríkisstjórnin með afar rúman þingmeirihluta. Lítil hætta er á því að slík tillaga næði fram að ganga, því jafnvel þótt allir þingmenn Samfylkingarinnar sætu hjá héldi stjórnin samt velli í krafti 25 þingmanna Sjálfstæðisflokks gegn 20 þingmönnum stjórnarandstöðuflokka. Hjáseta stakra þingmanna í stjórnarliðinu hefði hins vegar sitt að segja um innri styrk stjórnarinnar og myndi vafalaust auka núninginn milli stjórnarflokkanna.