„Sjálfstæðisflokkurinn mun veita þessu frumvarpi brautargengi," sagði Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í upphafi þingfundar í dag. Verið var að greiða atkvæði um heimild til að flýta í gegn frumvarpi fjármálaráðherra um greiðsluaðlögun fyrirtækja vegna greiðslu aðflutningsgjalda og vörugjalds. Áætlað er að keyra frumvarpið í gegn á Alþingi í dag og það verði að lögum í lok dags.

„Þetta er eitt af þeim málum sem er góð samstaða um milli stjórnar og stjórnarandstöðu, ætla ég. Það er sjálfsagt mál, í akkúrat svona málum, að veita öll þau afbrigði og aðstoð sem þarf til að gera svona mál að lögum. Þetta skiptir máli fyrir fyrirtæki í landinu, fyrir þau fyrirtæki sem eiga í greiðsluerfiðleikum. því segi ég já við því að veita þetta afbrigði," sagði Illugi og vísaði þar til afbrigðis til að taka frumvarp til umræðu innan tilskilins frests sem þarf að líða á milli umræðna í þinginu.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist viljugur að veita þetta afbrigði en gerði athugasemdir við það að svona seint væri brugðist við. Það hefði verið löngu vitað að leysa þyrfti þetta mál og það datt inn á Alþingi í gærkvöldi. „Mér finnst það vera athugunarvert að menn skuli vinna svona hroðvirknislega," sagði Pétur.

Með frumvarpinu er lagt til að vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar verði á árinu 2010 hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda, sbr. ákvæði laga þar um, dreift á tvo gjalddaga í stað eins. Þetta tímabundna fyrirkomulag kallar á breytingar, í formi ákvæða til bráðabirgða, á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt.

Greiðsluaðlögun af þessu tagi var samþykkt í fyrra en gilti einungis fyrir árið 2009.