Háskóli Íslands og lyfjafyrirtækið Actavis hafa gert með sér samstarfssamning sem veitir nemendum við Háskóla Íslands tækifæri til þess að glíma við verkefni sem tengjast starfsemi Actavis. Jafnframt nýtur fyrirtækið þekkingar kennara og nemenda við Háskóla Íslands.

Til þess að stuðla að þessu markmiði er með undirritun samningsins stofnsettur sjóður sem úthlutar styrkjum til nemenda. Actavis leggur til árlega allt að fjórar milljónir króna í verkefnasjóðinn í þrjú ár; samtals 12 milljónir króna. Styrkveitingar miðast að mestu leyti við verkefni nemenda við lyfjafræðideild, verkfræðideild og viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Árleg styrkupphæð fer eftir þeim verkefnum sem sótt er um. Heimilt er að nýta hluta fjárveitingarinnar til verkefna sem unnin eru af kennurum deildanna þriggja. Miðað er við að verkefni hafi sem hagnýtast gildi fyrir Actavis og mun fyrirtækið nýta verkefnaskýrslurnar við starfsemi sína.

Stjórn verkefnasjóðsins verður skipuð kennurum úr deildunum þremur auk fulltrúa frá Actavis. Samningur Actavis og Háskóla Íslands gildir frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2007.