Á mánudaginn tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að nánar yrði unnið með nágrannaríkjum sambandsins í orkumálum með það að markmiði að styrkja tengsl við nágrannaríki sambandsins í Austur-Evrópu, Norður-Afríku og Mið-Austurlöndunum.

Framkvæmdastjóri ytri samskipta Evrópusambandsins, Benita Ferrero-Waldner, segir að framkvæmdarstjórnin muni setja af stað rannsókn um hvernig sé best staðið að því að gera orkumarkaði sambandsins betri gagnvart neytendum, framleiðendum og aðliggjandi löndum.

Áhyggjur vegna aukinna áhrifa Rússlands á orkumarkaði Evrópusambandsins hafa stóraukist á undanförnum tveimur árum, en Evrópusambandið vonast til að jafna stöðuna með því að auka orkumálasamstarf við nágrannaríki á borð við Alsír og Azerbaijan.

Umgjörð verkefnisins er svokölluð European Neighbourhood Policy (ENP), sem nær til 15 ríkja, frá Georgíu og Úkraínu til Líbanon og Túnis. Engin þessara ríkja eru nú möguleg aðildarríki sambandssins, en framkvæmdastjórnin telur að gott samstarf við þau muni auka stöðugleika við gríðarstór landamæri sambandsins. Framkvæmdastjórnin hefur lagt ríflega þúsund milljarða króna til ENP verkefnisins sem nær frá 2007 til 2013.

ENP hefur verið gagnrýnt fyrir að gera lítið til að leysa úr ágreiningi og etja saman Rússlandi gegn Georgíu og Moldovíu. Einnig hefur verið gagnrýnt að með því að taka Armeníu, Georgíu og Úkraínu inn í ENP, sé dregið úr því að ríkin sækist eftir aðild til lengri tíma.