*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Frjáls verslun 29. júní 2021 13:21

Samstarf innlendra og erlendra fjárfesta í nýsköpun

Mikilvægt er að íslenskir og erlendir fjárfestar starfi saman til að efla hagvöxt og nýsköpun á Íslandi.

Helga Valfells
Haraldur Guðjónsson

Sjóðir sem fjárfesta snemma í nýsköpunarfyrirtækjum kallast nú vísisjóðir á íslensku. Þetta er hljóðmynd af enska orðinu „VC fund" sem er svo aftur skammstöfun á orðinu „Venture Capital fund". Vísisjóðir eru tiltölulega ný tegund af sjóðstýringarformi á Íslandi og eru helsta fjármögnunarleið fyrir ný upplýsingatækni og líftæknifyrirtæki sem ætla að vaxa hratt á alþjóðamarkaði. Vísisjóðir stýra þeirri áhættu sem fylgir því að fjárfesta í nýsköpun með því að kaupa hlutafé í mörgum nýjum félögum og halda á eignarhlutum í allt að 10 ár. Þegar vel gengur halda vísisjóðir áfram að styðja við vöxt viðkomandi fyrirtækja, og fá þannig fjárfestingu margfalt til baka þegar félagið er selt eða skráð á markað. Ef ung nýsköpunarfyrirtæki eru ekki að ná árangri þá er þeim lokað eða þau seld á lágu verði. Frá árinu 2015 hafa orðið til nokkrir einkareknir vísisjóðir á Íslandi sem starfa með langtíma sjónarmið að leiðarljósi og fjárfesta yfirleitt í tæknidrifnum nýsköpunarfyrirtækjum. 

Mikilvæg viðbót við okkar innlenda vísisumhverfi er sívaxandi fjöldi erlendra fjárfesta sem eru að fjárfesta samhliða íslenskum vísisjóðum. Aðkoma erlendra fjárfesta getur verið með ýmsum hætti. 

Alþjóðlegir „englar" fljúga til Íslands

Á fyrstu stigum nýsköpunar er oft talað um englafjárfestingar. Það eru fjársterkir einstaklingar sem eru tilbúnir að styðja mjög snemma við frumkvöðla. Erlendir „englar" hafa fjárfest í íslenskum félögum á undan eða samhliða íslenskum englum eða vísisjóðum. Englarnir sem koma inn í íslenskar fjárfestingar eru oft fyrrverandi frumkvöðlar sem hafa selt sín félög og vilja fjárfesta í næstu kynslóð frumkvöðla. Erlendir englar sem hafa leitað til Íslands koma yfirleitt með mikla þekkingu á viðkomandi atvinnugrein, þekkja vöruþróun vel og geta því oft stutt íslenska frumkvöðla á hagnýtan hátt eða aðstoðað við að tengjast ákveðnum markaðssvæðum. 

Dæmi um slíkt er t.d. félagið www.Katla.com sem var stofnað um áramótin 2019/2020 af Áslaugu Magnúsdóttur. Katla er lítið fyrirtæki í örum vexti og er rekið frá Reykjavík og San Francisco. Katla notar tækni til að gera framleiðslu og dreifingu á fatnaði umhverfisvænni og arðbærari. Það var hópur af bandarískum englum með mikla reynslu í tækni, fataiðnaði og sjálfbærni sem kom að því að fjármagna Kötlu ásamt Crowberry Capital. Englarnir sem koma að félaginu koma með reynslu frá fyrirtækjum eins og Facebook, Airbnb og tískufyrirtækinu Kate Spade.

Tugir erlendra vísisjóða fjárfesta á Íslandi

Erlendir vísisjóðir hafa sýnt mikinn áhuga á að fjárfesta í íslenskum sprotafyrirtækjum eftir að félögin komast af englastigi. Tæplega fjörutíu erlendir vísisjóðir hafa fjárfest í íslenskum nýsköpunarfélögum undanfarin 10 ár. Það eru ýmsar ástæður sem liggja að baki þessari þróun. 

Fullt afnám gjaldeyrishafta árið 2017 er hluti af skýringunni. Þegar gjaldeyrishöft voru hér við lýði á árunum 2008 til 2017 var erfitt en ekki útilokað að fá erlenda vísifjárfesta inn á fyrstu stig nýsköpunar. Dæmi um félög sem fengu erlenda vísifjárfesta til liðs við sig á tímum gjaldeyrishafta voru fyrirtæki eins og Mentor, Meninga og Sling. Afnám hafta jók trú erlendra vísifjárfesta á Íslandi. Mörg félög sem ætla sér að fá erlenda fjárfesta gera áætlanir í erlendri mynt. Fjármögnunarferlið er skipulagt í dollurum eða evrum, félögin fá megnið af sínum tekjum erlendis frá og gera upp í erlendri mynt. Erlendu fjárfestarnir taka enga krónuáhættu. Þetta auðveldar að sjálfsögðu aðkomu erlendra fjárfesta. 

Síðastliðinn áratug hafa mörg af öflugustu nýsköpunarfyrirtækjum heims komið frá Evrópu og innan Evrópu hafa Norðurlöndin staðið sig sérstaklega vel. Þetta er önnur mikilvæg ástæða fyrir virkni alþjóðlegra vísisjóða í Evrópu. Sænska félagið Spotify, hið finnska SuperCell og dansk/íslenska Unity hafa öll sýnt og sannað að það er hægt að skala upp verðmæt alþjóðleg félög frá Norðurlöndum.

„Nýsköpunargeislabaugur" Norðurlanda nær til Íslands.

Íslenskt nýsköpunarumhverfi hefur þroskast mikið undanfarinn áratug. Hér er öflug grasrót sem styður frumkvöðla í gegnum fyrstu stig nýsköpunar. Tækniþróunarsjóður, Icelandic Startups og hinir ýmsu klasar veita góðan stuðning. Nú er til kynslóð frumkvöðla sem eru með reynslu af nýsköpun allt frá aldamótum. Það er eftirtektarvert hversu margir íslenskir frumkvöðlar flytja til Íslands til að stofna fyrirtæki eftir að hafa viðað að sér menntun og starfsreynslu á alþjóðavettvangi. Dæmi um slíkt er stofnandi Lucinity. Guðmundur Kristjánsson flutti til Íslands árið 2018, eftir fimmtán ára dvöl erlendis þar sem hann hafði menntað sig og fengið starfsreynslu hjá tæknifyrirtækjum og stóru alþjóðlegu fjármálafyrirtæki. Guðmundur stofnaði félagið Lucinity 1. nóvember 2018. Síðan hafa þrír erlendir vísisjóðir fjárfest í Lucinity ásamt Íslenska sjóðnum Crowberry Capital. 

Öflugra einkarekið sjóðaumhverfi er einnig mikilvæg ástæða þess að góðir alþjóðlegir vísisjóðir laðast að Íslandi. Frá árinu 2015 hafa fimm innlendir vísisjóðir verið stofnaðir á Íslandi. Mörgum erlendum sjóðum þykir gott að fjárfesta með innlendum fjárfestum sem eru með alþjóðleg vinnubrögð en þekkja aðstæður vel hérlendis. Innlendir vísisjóðir eru einnig duglegir að markaðssetja Ísland sem fjárfestingartækifæri þegar þeir mæta á alþjóðlegar ráðstefnur eða eru í beinum samskiptum við erlenda kollega. Sem dæmi má nefna að hjá Crowberry Capital höfum við fengið um tuttugu erlenda vísisjóði með okkur í fimmtán fjárfestingar.

Samstarf innlendra og erlendra vísisjóða skiptir miklu máli. Innlendu sjóðirnir getað virkað sem hvati fyrir erlendu sjóðina. Erlendu sjóðirnir auka fjármagn í umferð og breikka þekkingargrunn fjárfesta. Þetta eykur að sjálfsögðu samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á alþjóðamarkaði. Það er mikilvægt að innlendir fjárfestar hagnist jafnt og erlendir fjárfestar þegar vel gengur. Auðurinn felst líka í þekkingu, innlendir fjárfestar læra mikið af því að vinna með erlendum sjóðum. Loks má benda á að aðkoma erlendra sjóða inn í íslenskt nýsköpunarumhverfi veitir innlendum fjárfestum samkeppni og aðhaldið sem hollri samkeppni fylgir. 

Erlend tæknifyrirtæki fjárfesta líka á Íslandi

Englar og vísisjóðir eru ekki einu fjárfestarnir í Íslenskri nýsköpunarlögsögu. Mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa fjárfest samhliða íslenskum vísisjóðum eða keypt heilu félögin þegar upphaflegir fjárfestar selja sinn hlut. Dæmi um slíkt er leikjafyrirtækið Mainframe sem hefur fengið fjárfestingu frá Crowberry Capital, ásamt ýmsum vísisjóðum á Norðurlöndum og Andreesen Horowitz í Kísildal. Leikjafyrirtækið Riot Games fjárfesti einnig í Mainframe. Riot kemur inn í félagið á öðrum forsendum en vísisjóðirnir og er mikill gæðastimpill. 

Erlend stórfyrirtæki fjárfesta einnig í íslenskri nýsköpun við útgöngu vísisjóða. Við útgöngu er nýsköpunarfyrirtækið yfirleitt selt í heild sinni. Frumkvöðlar og aðrir starfsmenn halda þó áfram að starfa hjá félaginu. Stundum er hræðsla við að íslensk nýsköpunarfélög verði seld með húð og hári til erlendra aðila og störf og þekking fari úr landi. Reynslan sýnir þó hið gagnstæða. Skráð félög eins og Sabre, Teledyne Technologies, NetApp, Pearl Abyss og Amgen eru með skrifstofur á Íslandi, ekki af því að það var sérstök stefna þessara stórfyrirtækja að opna starfsstöðvar á Íslandi heldur miklu frekar af því að þau keyptu þekkingarfyrirtæki á Íslandi, kynntust landinu og ákváðu að halda starfseminni áfram. Hundruð vel menntaðra Íslendinga vinna hjá þessum félögum, fá með því alþjóðlega reynslu og góð laun án þess að yfirgefa Ísland. Þetta hlýtur að vera mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir spekileka.

Erlend fjárfesting er almennt talin hafa jákvæð áhrif á alþjóðaviðskipti og hagkerfi heimsins. Þegar lönd laða til sín utanaðkomandi fjármagn þá styður það við hagvöxt.

Sérstakir hvatar fyrir erlenda fjárfesta geta skekkt samkeppnisstöðu innlendra aðila. Reynsla íslenska nýsköpunarumhverfisins af erlendri fjárfestingu er afar jákvæð. Þegar kemur að nýsköpun eru sérstakir hvatar ekki nauðsynlegir. Hvatinn fyrir erlenda fjárfesta eru sterkir frumkvöðlar með alþjóðlega sýn, sanngjarnt lagaumhverfi og traustir innlendir meðfjárfestar og saman laða þessir þættir erlenda fjárfesta að íslenskum tækifærum. Vonandi heldur samstarf innlendra og erlendra fjárfesta áfram að aukast svo að hér verði vaxandi alþjóðageiri. Með fjölbreyttu fjárfestingarumhverfi eru meiri líkur á að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi fari vaxandi

Höfundur er stofnandi og meðeigandi Crowberry Capital.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér

Stikkorð: Nýsköpun